Go to content Go to navigation Go to search

Upledger Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð

Hvað getur höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð gert fyrir mig ?
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er mjög mild meðferð sem þrátt fyrir lítið inngrip hefur mjög djúp áhrif. Markmiðið er að meta og meðhöndla himnurnar sem umlykja miðtaugakerfið og/eða losa út orkumein. Þessi meðferð vinnur með líkamanum í að auka eigin getu til að efla starfsemi miðtaugakerfisins, minnkar neikvæðar afleiðingar streitu, eflir almennt heilsufar og eykur viðnám gegn sjúkdómum.
Auk þess býr þetta meðferðarform yfir þeim kosti að geta losað um gömul meiðsl (samgróningar, spenna, langvinnar bólgur eða önnur vandamál) sem geta valdið afleiddum vandamálum annars staðar í líkama, því þó gamla vandamálið sé án einkenna getur það þannig verið að valda óskýrðum verkjum, stirðleika eða vanstarfsemi annars staðar í líkamanum. Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð býr yfir greiningaraðferðum sem gera meðferðaraðilanum kleift að finna rót vandans. Þannig er ekki aðeins einnkennið meðhöndlað heldur er orsökin leituð uppi og meðhöndluð.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur m.a. reynst árangursrík við eftirfarandi:
Mígreni – Krónískum háls- og bakverkjum
– Heila og mænusköðum – Örðugleikum í stjórnun hreyfinga
– Streitu – Kjálka og bitvandamálum
– Hryggskekkju – Síþreytu
– Taugavandamálum – Námsörðugleikum
– Ofvirkni – Vefjagigt
– Áfallsröskun – Vandamálum í ónæmiskerfinu
– Vefjavandamálum eftir skurðaðgerðir 

Einnig er þetta einstaklega öflugt við vanlíðan ungbarna, t.d. magakveisu eða eyrnabólgu.

Þessi milda aðferð hentar öllum aldursflokkum og hún tryggir það að líkami þiggjandans ræður alltaf ferðinni og er þetta því mjög öruggt og hættulaust meðferðarform.
Langflestir finna fyrir verulega bættri líðan eftir fyrstu 1-3 skiptin. Mjög margir hafa gert þessa meðferð að reglubundnum þætti í sinni heilsueflingu en með því er hægt að koma í veg fyrir að gamlir skaðar taki sig upp, losa um gamla skaða sem hugsanlega eru að valda einhverjum vandamálum, losa um kvíða og andlega spennu og auka liðleika himnukerfisins sem lágmarkar hættu á sköðum.

Hvernig fer Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fram ?
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fer fram með þeim hætti að þiggjandinn liggur á bekk og er fullklæddur. Algengast er að hvert skipti taki um 1 klst.
Megin markmið meðferðarinnar er að greina uppruna á hvers kyns truflun á eðlilegri starfsemi kerfisins og byrjar meðferðaraðilinn á að greina hreyfinguna í mænuvökvanum með því að þreifa eftir henni á nokkrum stöðum á líkamanum og finnur þannig út hvar spenna liggur sem hindrar hreyfinguna. Það er hægt vegna þess að hreyfing cranio kerfisins endurspeglast um allan líkamann í gegnum bandvefinn.
Meðferðin er síðan fólgin í því að losa um spennuna í bandvefnum og liðka til fyrir hreyfingu höfuðbeina og spjaldhryggs og þar með losa um spennu í himnukerfi miðtaugakerfisins og leiðrétta skekkjur á beinum. Yfirleitt er notaður mjög léttur þrýstingur eða tog sem er samsvarandi því sem líkaminn þarf til að losa um eigin spennu.
Líkami þiggjandans er alltaf sá sem ræður ferðinni, bæði hvað magn þrýstings og stefnu varðar.

Hvað er sálvefræn tilfinningalosun (SER)
Er aðferð sem notuð er til að aðstoða líkamann við að losa um sálrænar afleiðingar af t.d. áföllum eða meiðslum og “neikvæðar” tilfinningar sem þeim tengjast. Hún byggir á höfuðbeina- og spjaldhryggjar vinnunni en einnig er beitt samtalstækni.
Þetta meðferðarform hófst í lok áttunda áratugarins þegar Dr. John Upledger og lífeðlisfræðingurinn Dr. Zvi Karni, rákust á að oft gerist það að líkaminn geymir í sér orku/tilfinningar, t.d. reiði eða hræðslu, sem er afleiðing slysa, meiðsla eða tilfinningalegs áfalls. Áfallið gerir það að verkum að líkaminn geymir orkuna á einhverjum stað í líkamanum og myndar það sem kallast orkumein. Heilbrigður líkami getur aðlagast slíkum orkumeinum, en þau valda því að líkaminn þarf að vinna í kringum meinið til að bæta upp truflunina af völdum þess og við það fer meiri orka í alla starfsemina. Eftir því sem árin líða þá minnkar aðlögunargetan og fram koma einkenni sem sífellt er erfiðara að horfa framhjá eða halda niðri.

Saga og þróun meðferðinnar
Alla síðustu öld hefur Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð verið að þróast út frá uppgvötunum þriggja lækna. A.T. Still, William Sutherland og Dr. John E. Upledger.
Eftir að Dr. John E. Upledger, stofnandi Upledger stofnunarinnar, rakst á kröftugan slátt í mænuvökvanum þegar hann aðstoðaði við skurðaðgerð þar sem verið var að fjarlægja kölkun við mænuhimnur í hálsi hóf hann rannsóknir á því fyrirbæri. Hann hóf nám við höfuðbeina-liðfræði og eftir mikla rannsóknarvinnu Michican State University, þróaði hann CranioSacral meðferðina eins og hún er í dag.
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið eða Cranio kerfið er sjálfstætt kerfi eins og t.d blóðrásarkerfið. Það samanstendur af heila og mænu, þeim beinum sem himnunar hafa beinfestu á (höfuðbein og spjaldhryggur) og öðrum bandvef sem tengist himnunum beint. Kerfinu tilheyrir einnig heila- og mænuvökvinn sem nærir og ver miðtaugakerfið og þau kerfi sem tengjast framleiðslu og frásogi heila- og mænuvökvans.

Hér er einföld skýring á myndrænu máli