Go to content Go to navigation Go to search

Maðurinn er ekki vél

Friday, 17. October 2008

Í 95% tilvika er hægt að sinna kvörtunum fólks utan sjúkrahúsa, segir Niels Bentzen, prófessor í heimilislækningum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann telur að heimilislæknir geti betur sinnt sjúklingum sínum með samtölum og of oft leiti fólk beint til sérfræðinga í stað þess að ræða vandamál sín fyrst við heimilislækni. „Þegar vandamál steðja að, eins og til dæmis hér á landi núna, þurfum við að líta til þess hver grundvallaratriðin eru í raun,“ segir Bentzen.

Hann telur að þjóðir heimsins séu á rangri leið með því að leita í genasafni fjölskyldna eftir veikleikum. „Það verður að skilja manninn sem manneskju en ekki sem vél,“ segir hann. „Ef litið er á manneskjuna sem vél og öll líffæri og líkamshluta sem vélaparta er hver hlutur skoðaður fyrir sig. Með því að gera það má spá fyrir um heilsufar viðkomandi manneskju. Það tel ég rangt,“ segir Bentzen og útskýrir mál sitt betur.

„Margt fólk finnur fyrir streitu og hún getur lýst sér í líkamlegum einkennum. Áhyggjur af heimilinu eða vinnunni geta komið út sem höfuðverkur, svefnvandamál, magaverkur og svo framvegis. Þegar fólk var hamingjusamt gat það sigrast á andlegum einkennum og leitaði ekki endilega til læknis. Hins vegar, í dag, tekst fólki þetta ekki og leitar beint til sérfræðings.“ Ef t.d. einhver leitar til sérfræðings vegna magaverkja skoðar sá sérfræðingur fyrst magann í gegnum magaspeglun. Þá er leitast við að lækna einkennin, sem eru jafnvel af andlegum toga, með lyfjagjöf, sem Bentzen telur óþarft.

Tekið af mbl.is

Næstu færslur »